Júróvisjón yfirferð - Samveldi sjálfstæðra ríkja

Hér verður drepið á lögum frá þeim löndum sem íslenskir þulir eru duglegir að minna á að séu "fyrrum sovétlýðveldi". Mörg þessara landa eru með teljandi rússneska minnihluta og voru þannig kveikjan að sigri Rússlands í fyrra.

 Armenía

Armenar eru krúttlega viðvaningslegir í ár. Myndbandið er álíka pró og myndlistarsýning með verkum leikskólabarna. Enskan er líklega ekki móðurmál söngvaranna, né heldur annað mál þeirra. Ætli lagið sjálft og laglínan sé sterkasta hlið verksins en ég hef samt heyrt mun betra popp í austurlenskum þjóðlagastíl.

 

 

Aserbaídsjan

Vinir mínir Aserar gerðu í fyrra heiðarlega atlögu að heimsmeti í kítsi með karlkynsdúetti sem kom fram sem engill og djöfull í laginu Day After Day.

Aftur er dúett á ferðinni, nú blandaður. Lagið er frekar skítsó, með viðlagi sem reynir að vera grípandi en mistekst. Myndbandið sýnir parið m.a. í hljóðveri að mixa lögum. Eitthvað hefur mixering gengið upp og ofan og ég set spurningarmerki við boioiong hljómborðshljóðin. Dæmi hver fyrir sig, en mér sýnist Aserar hafa klárað bödsettið  í fyrra.

 

 

 Hvítarússland

 Hvítrússar senda gömlu ofurhetjuna He-Man. Meira segja er lagið frekar He-manslegt. Kannski ekki furða komandi frá einu seinasta harðstjórnarríki Evrópu.

Ofurhetjan gerir þetta í sjálfu sér ekki illa, en það er erfitt að hugsa um annað en Alexander Lukasjenkó, þegar listamenn frá þessu ríki stíga á svið og ég er hræddur um að þorri Evrópubúa muni gera einmitt það og láta því vera að kjósa karlinn. En allri pólitík slepptri þá bætir lagið litlu við tónlistarsöguna.

 

Moldóva

"Moldovan Tourist Board welcomes you to Moldova, the land of contrasts." Lagið og myndbandið eru landkynning frá A til Ö. Dálítið merkilegt raunar. Ekki verri notkun á 3 mínútum en hvað annað. Á köflum hljómar þetta raunar eins og tónlist sem ég set á í partýum þegar ég vil lúkka austurevrópskur og öðruvísi. Ég er bara ekki viss um hvernig lofgjörð um Moldóvu á sjeikí ensku fellur að þessum þjóðlaga stíl.

 

 

Úkraína

Tvímælalaust lag til að fylgjast með í ár. Eftir annað sætið hjá Ani Lorak í fyrra komust Úkraínumenn að því að það þyrfti aðeins að sexa atriðið sitt upp. Þeir senda vinsæla popplistakonu úr heimalandinu hana Svetlönu Lobodu.

Myndbandið er náttúrlega á algjörum flagg-mörkum fyrir Youtube. Klobbar, rassar að koma upp úr súkkulaðibaði, naktir sixpakkar að berja á trommur, smurðar súlur, löðrandi gellur, kabarettsöngkonur, jarðaber sem þrútna á súggestívan máta, nefnið það. Áhugamenn um Svetlönu fatta raunar fljótt að myndbandið er að stórum hluta samsuða úr fyrri myndböndum hennar, við lög eins og Mishka og önnur sem hafa vermt toppinn á úkraínska listanum á undanförnum árum.

Þrátt fyrir að það valdi dálitlum titringi á heimilinu þá er þetta lag samt í töluverðu uppáhaldi hjá undirrituðum. Ég get ekki annað en borið virðingu fyrir listamanni sem treður textum eins og "We’re gonna do the bom bom" inn tónverk sín.

 

 

Rússland

 Vonandi að Rússar hafi náð sínu landkynningarmarkmiði með óverðskulduðum sigri í fyrra og geti nú látið keppnina í friði. Mér sýnist þeir raunar gera svo og stíga til hliðar með þessu hræðilega framlagi sínu. 

Söngkonan endurtekur orðin Mamo,Mamo, sem þýðir Mamma, Mamma, ég veit ekki með það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband