26.11.2024 | 18:12
Atkvæði greidd Viðreisn eru atkvæði með starfhæfri stjórn
Nú er komið á þann skemmtilega stað í kosningabaráttunni að fjölmargir flokkar hafa sannfært sjálfa sig um að besta leið til að fá kjósendur til að kjósa sig er að hræða þá með einhverjum öðrum.
Það geta allir leikið þennan leik. Dæmi: Ég hitti Gunnar Braga á Bylgjunni og þáttarstjórnendur spurðu í blálokin við gætum hugsað okkur að vinna saman í ríkisstjórn. Ég gæti unnið með Pawel svaraði Gunnar Bragi nokkuð einlægt, sem mér þótti ágætlega vænt um, þótt engum dylst að talsvert beri á milli okkar flokka í fjölmörgum málum.
Hingað til hefur enginn pikkað þetta upp og búið til fyrirsögnina: Atkvæði greidd Gunnari Braga eru atkvæði greidd Pawel! Kannski af því enginn spunameistari hafi metið það svo að markhópurinn sem gæti látið slíkan hræðsluáróður stjórna atkvæði sínu væri nægilega stór.
90 útgáfur af hræðslu-fyrirsögnum
Þar sem við erum með 10 flokka sem bjóða fram á landsvísu er hægt að skrifa 10 x 9 = 90 fyrirsagnir af gerðinni atkvæði greidd flokki X eru atkvæði greidd flokki Y og örugglega rökstyðja flestar þeirra með einhverjum hætti. Margar þeirrar hef ég þegar séð og fleiri eru örugglega á leiðinni.
Þetta er allt eiginlega kómískt. Sjálfstæðisflokkurinn stjórnaði með VG. Í SJÖ ÁR. Gerði formann VG að forsætisráðherra. Hafa raunar ekki útilokað formlega að slíkt samstarf gæti verið endurtekið í framtíðinni. Eru þá atkvæði greidd XD ekki atkvæði til Svandísar Svavarsdóttur? Eða öfugt? Mætti ekki alveg segja það?
En til hvers að standa í þessum leik? Bara þótt að einhver flokkur útiloki ekki samstarf við annan þýðir auðvitað ekki að það skipti engu máli hvorn þeirra maður kýs. Allir þessir flokkar sín óliku stefnumál og frambjóðendur. Og munu vera í sterkari stöðu með meira fylgi en minna.
Atkvæði greidd Viðreisn eru atkvæði greidd Viðreisn
Einu er samt hægt að lofa um stjórnarþátttöku Viðreisnar. Viðreisn mun ekki taka þátt í að grafa undan kerfisbundið undan ráðherrum samstarfsflokka, ráðherrar Viðreisnar munu ekki senda samstarfsfólki sínu í ríkisstjórn eitraðar pillur í fjölmiðlum og þingmenn Viðreisnar munu ekki mæla árangur sinn á þingi í fjölda stjórnarfrumvapa sem þeir hafa stoppað.
Ef fólk vill þannig stjórnmál þá gæti það þurft að leita annað.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook