9.11.2024 | 17:07
Fjárlögin sem Bjarni vill að þú gleymir
Halli ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum stefnir í 60 milljarða á næsta ári. Þetta er þá sjöunda árið í röð sem ríkissjóður er rekinn með halla. Þarna koma vissulega inn Covid-ár sem við skulum ekki gera sérstakan ágreining um hér en hallareksturinn var byrjaður tveimur árum áður og hefur haldið áfram síðan.
Til upprifunar: Svona hefur halli ríkisjóðs verið samkvæmt fjárlögum, árin eftir Covid:
2023: 120 milljarðar
2024: 50 milljarðar
2025: 60 milljarðar
Fjárlögin sem nú eru til umræðu verða því ekki einu sinni þau verstu eftir heimsfaraldurinn. Ástæða er til að minnast sérstaklega á fjárlögin 2023 sem urðu að lögum í árslok 2022. Þarna var ljóst að Covid-faraldrinum væri lokið og nauðsynlegt væri að rétta við rekstur ríkissjóðs og sýna aðhald.
Langur listi af tímabundnum framlögum
Fjármálaráðherra skilaði fjárlagafrumvarpi með 80 milljarða halla og stjórnarflokkarnir á Alþingi tóku sig til, lömdu í borðið og
hækkuðu hallann upp í 120 milljarða!
Grípum inn í lestur álits meirihluta fjárlaganefndar:
Lögð er til 75 m.kr. tímabundin hækkun í eitt ár vegna undirbúnings og samkeppni í tengslum við húsnæði fyrir Listaháskóla Íslands að Tryggvagötu.
Gerð er tillaga um 100 m.kr. tímabundið framlag til stuðnings við einkarekna fjölmiðla.
Lagt er til að Alþingi verði veitt 53,1 m.kr. tímabundið framlag til að breyta frágangi vinnurýma á þingmannahæðum í nýbyggingu Alþingis svo að þau verði lokuð en ekki opin.
Gerð er tillaga um 15 m.kr. tímabundið framlag til Klúbbs matreiðslumeistara og Íslensku bocuse d'or akademíunnar vegna keppnismatreiðslu.
Gerð er tillaga um 48 m.kr. tímabundið framlag til Samtaka náttúrustofa sem dreifist jafnt til náttúrustofanna átta, þ.e. 6 m.kr. til hverrar.
Gerð er tillaga um 35 m.kr. tímabundið framlag til stuðnings verkefna sem Fornminjasjóður styrkir.
Gerð er tillaga um 20 m.kr. tímabundið framlag til reksturs Rannsóknarseturs um menntun og hugarfar.
Lagt er til að veita starfsemi atvinnuráðgjafa á landsbyggðinni 40 m.kr. tímabundið framlag sem Byggðastofnun verði falið að ráðstafa.
Gerð er tillaga um 14 m.kr. tímabundið framlag til Hins íslenska fornritafélags.
Gerð er tillaga um 36,6 m.kr. tímabundið framlag til að standa straum af viðhaldi og viðgerðum á Jónshúsi í Kaupmannahöfn.
Sýnir ekki aðhald
Hér voru talin upp nokkur af þeim tímabundnu framlögum sem mælt var fyrir um í frumvarpinu. Alls voru tímabundnu framlögin hátt á sjöunda tug. Þetta eru öll eflaust hin mætustu verkefni og sum jafnvel brýn. En upptalningin sýnir samt ýmsa hluti:
Í fyrsta lagi að meirihluti fjárlaganefndar virðist ekki hafa treyst mati fjármálaráðuneytisins á fjárþörf ýmissa ríkisstofnana og ítrekað bætt við fjárlagaramma þeirra, væntanlega í kjölfar áskorana frá stofnunum sjálfum.
Í öðru lagi að meirihluti fjárlaganefndar er þarna búinn að breyta styrkjaúthlutunarnefnd og ríkissjóði í almennan styrktarsjóð fyrir ýmis þróunar-, umbóta- og viðhaldsverkefni.
Hvort tveggja er einfaldlega dæmi um agaleysi í ríkisfjármálum: Agaleysi sem býr til fjárlagahallann. Agaleysi sem keyrir áfram verðbólguna. Agaleysi sem veldur því að þeir sem héldu um budduna njóta ekki lengur trausts almennings.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:38 | Facebook