2.11.2024 | 19:49
Bjarni Benediktsson ruglast á sveitarfélögum
Forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, sló kunnuglegan tón og kenndi öðrum um eigin ófarir í efnahagsmálum. Í sjónvarpskappræðum gærdagsins sagði hann meðal annars:
"Við erum að horfa upp á það núna að Kópavogur og Reykjavíkurborg eru í ágreiningi um vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins. Þetta er ekki boðlegt. Það er land sem er til reiðu og hægt að byggja á. En Reykjavíkurborg neitar!"
Hér hefur forsætisráðherra eitthvað ruglast á sveitarfélögum. Það hafa ekki komið neinar formlegar óskir fá Kópavogi um stækkun vaxtarmarka sem Reykjavíkurborg hefur tekið fyrir og neitað. Einfaldur lestur fundargerða svæðisskipulagsnefndar leiðir það í ljós.
Hins vegar hefur komið fram formlegt erindi frá Garðabæ um stækkun vaxtarmarka á svæði sem heitir Rjúpnahlíð. Markmiðið með þeim breytingum var að skapa rými fyrir athafnasvæði til að Garðabær gæti boðið fyrirtækjum sem staðsett eru á svæðum sem eru að fara í þróun nýjar lóðir. Þannig myndi þessi breyting stuðla að auknu framboði húsnæðis.
Svæðisskipulagsnefnd samþykkti að auglýsa umrædda tillögu og greiddu báðir fulltrúar Reykjavíkurborgar atkvæði með því. Hins vegar var málið tekið fyrir í bæjarstjórn Kópavogs og fellt þar. Ástæðan fyrir því voru grenndarsjónarmið og það má að sjálfsögðu sýna þeim virðingu. En engu að síður skal rétt vera rétt. Bjarni Benediktsson hefði átt að segja:
"Við erum að horfa upp á það núna að Garðabær og Kópavogur eru í ágreiningi um vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins. Það er auðvitað ekki boðlegt! Það er land sem er til reiðu og hægt að byggja á. En Kópavogur neitar!"
Það hefði reyndar beint sjónum að því eina skiptið á kjörtímabilinu þar sem stækkun vaxtarmarka hefur verið hafnað sneri að tveimur sveitarfélögum í hans kjördæmi, sem bæði eru undir stjórn hans eigin flokks. Það var kannski þess vegna sem hann ákvað frekar að ráðast með ósannindum á Reykjavíkurborg.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook