Allt er öðrum að kenna

Þó svo að einn flokkur hafi stjórnað landinu með fjögurra ára hléi undanfarin 35 ár, þar af síðustu 11 ár samfellt þá verður samt að hafa í huga að hann ber mjög takmarkaða ábyrgð á stjórn landsins, ef marka má þeirra eigin orð.

Vextir og verðbólga

Verðbólgan er ekki þeim að kenna. Hún hefur ekkert með fjárlagahallann að gera, hún er borginni að kenna. Þar sem reyndar hefur verið meira byggt á undanförnum árum ár enn nokkru sinni fyrr.

Fjárlagahallinn? Hann er auðvitað ekkert þeim að kenna. Ábyrgðin er launþeganna sem vilja alltaf fá launahækkanir til að launin haldi í við verðbólguna. Óábyrgt!

Og vextirnir? Þeir eru auðvitað allt of háir! Þarna er seðlabankinn auðvitað að fara fram úr sér með því beita þeim tækjum sem hann hefur til að slá á þenslu. Óforskammað!

Og allar þessar íþyngjandi reglugerðir? Evrópusambandinu að kenna!  Reynda er viðurkennt að ráðuneytin gullhúði þær en ráðherrar geta auðvitað ekki borið ábyrgð á því!

Stjórnarandstaðan ber alla ábyrgð!

Innflytjendamál? Stjórnarandstaðan! Hún ber ábyrgð á þeim. Því hluti hennar sat miskunnarlaust hjá við afgreiðslu útlendingalaga.

Finnst ykkur orkuskiptin ganga hægt? Talið við stjórnarandstöðuna! Hún ber ábyrgð á því.

Lesskilningur barna? Ætlar engin að draga stjórnarandstöðuna til ábyrgðar í þeim málum? 

Samgönguáætlun? Vissulega er ágreiningur innan þingflokks stjórnarflokksins sem tafið hefur málið en það má líka finna einhverja stjórnarandstæðinga sem eru ekki alveg sammála um það. Tölum um það!

Skiptum um stjórnarandstöðu!

En gott og vel. Fyrst að flest sem miður hefur farið á Íslandi undanfarin ár er á ábyrgð stjórnarandstöðunnar þá er kannski fín hugmynd að skipta um stjórnarandstöðu. 

Hver veit nema þeim sem þannig tala verði á endanum að ósk sinni.




Bloggfærslur 14. nóvember 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband